IFS Greining hefur gefið út afkomuspá fjórða fjórðungs ársins 2008 fyrir þau félög sem mynda nýja Úrvalsvísitölu, OMXI6.

Í ritinu, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, kemur m.a. fram að IFS telji Össur og Marel bestu fjárfestingakostina á markaðnum í dag.

Greiningin spáir því að hagnaður Marel á fjórða fjórðungi 2008 verði 3,1 milljónir evra. Þá er því spáð að hagnaður félagsins á árinu 2009 verði 19,6 milljónir evra, í samanburði við 19 milljónir evra árið 2008. Söluvöxtur er talinn verða 4,3% á þessu ári. IFS metur langtímahorfur í rekstri Marel jákvæðar og segir að staða Marel sé sterk eftir samþættinguna við Stork, með tilliti til skiptingu eftir atvinnugreinum og fjármögnun.

IFS spáir því að hagnaður Össurar verði 9,6 milljónir dollara á fjórða fjórðungi 2008. Til samanburðar má nefna að hagnaður fjórða fjórðungs ársins 2007 nam 6,5 milljónum dollara. Í umfjöllun um Össur segir að félagið sé fjárhagslega burðugt, með traustan eigendahóp og í góðum rekstri.