IFS Greining mælir með þátttöku í hlutafjárútboði Marel og telur að verðið, 63-65 krónur á hlut, sé hagstætt horft til langs tíma.

Þetta kemur fram í viðbrögðum IFS við hlutafjáraukningu Marel sem tilkynnt var um í morgun. Marel stefnir að því að auka hlutafé um 15% (92,4 milljónir hluta) í vikunni. Núverandi hlutafé félagsins er 616 milljónir hluta.

„Í verðmati okkar frá því í lok ágúst var niðurstaða sjóðstreymismats 0,5 EUR á hlut (91,6 ISK á hlut) og markgengi var 0,4 EUR á hlut (73,3 ISK á hlut),“ segir í viðbrögðum IFS.

„Þetta verðmat er enn í gildi. Frá því verðmatið var gefið út hefur Columbia Wanger keypt 5,2% hlut í félaginu (á genginu 59 kr. á hlut) og auk þess var uppgjör 3F09 yfir væntingum okkar.“

Þá segir IFS að uppgjör Marel á þriðja ársfjórðungi þessa árs sýni að mikill árangur hefur náðst á kostnaðarhliðinni í rekstrinum. Stjórnendur Marel hafi undanfarið lagt áherslu á niðurgreiðslu skulda með sölu á einingum utan kjarnastarfsemi.

Þá segir IFS að félagið hafi jafnframt takmarkað fjárfestingu undanfarið, minnkað veltufjárbindingu og aukið hlutafé í nokkrum misstórum skrefum.

„Stefnan hefur verið skýr varðandi flest þessi atriði,“ segir IFS.

„Að okkar mati hefur þó tíð aukning á hlutafé félagsins á ólíkum kjörum haft hamlandi áhrif á verðið á markaði þar sem óvissa hefur verið um hvenær nóg er komið af hlutafjáraukningum. Við teljum að verðkennitölur Marel fyrir árið 2010 séu hagstæðar í samanburði við önnur félög í skyldum rekstri sem mörg hver hafa hækkað mikið á árinu.“