IFS greining telur að bæði skammtíma- og langtímahorfur Marels séu góðar og mælir með kaupum í félaginu. Í nýrri verðmatsgreiningu sinni segir IFS að markgengi Marels sé 0,77 evrur (117 krónur) horft til næstu 6-12 mánaða. Jafngildir það 10,2x EV/EVITDA hlutfalli ársins 2010. Gengi á hlutabréfum í Marel í dag er 0,65 evrur (99 krónur).

Segir að mat á sjóðstreymi gefi til kynna að verðmatsgengi sé 0,75 evrur (114 krónur) á hlut, sem er 15% meira en markaðsvirði félagsins er í dag. Áður hafði IFS reiknað verðmatsgengið 0,68 en hafa nú hækkað það þar sem horfur eru á að tekjur verði meiri á árunum 2010 og 2011 en áður var talið.

Verðmatsgreining IFS ber saman Marel við samkeppnisaðila en tekið er fram að fæstir þeirra eru skráðir á markað. Í samanburði við önnur sambærileg félög eru verðkennitölur Marels hagstæðari.

Lægri vextir og þróun að skila sér

Segir að afkomuhorfur séu góðar hjá félaginu og að pantanir eftir vörum hafi fjölgað. Pantanabók sé nú á sama stað og hún var fyrir efnahagslægðina. Þá hafi Marel nýverið lokið við endurfjármögnun sem lækki fjármagnskostnað verulega.

Þá sé vöruþróun félagsins að borga sig og eru nýjar afurðir Marels, StreamLine, RevoPortioner og SensorX sérstaklega nefnd. Lækkandi vaxtastig hjálpi einnig félaginu og ætti að hafa jákvæð áhrif á hlutabréfamarkaðinn hér heima, sem þó verður líklega lítið virkur litið til skamms tíma.

IFS greining telur að Marel verði skráð á markað annað hvort í Amsterdam eða Kaupmannahöfn en forsvarsmenn Marels hafa gefið út að stefnt sé að tvíhliðaskráningu félagsins.

Bent er á að Marel er nokkuð skuldsett eftir hraðann vöxt á síðustu árum. Nettó vaxtaberandi skuldir eru þó að dragast saman og nema nú 271 milljón evra. Hafa þær lækkað um yfir 100 milljónir evra síðan á fjórða ársfjórðungi 2008. Það hefur einkum náðst með sölu eigna, sterku sjóðstreymi og hlutafjárútboði.

IFS greining gerir ráð fyrir 10% EBIT framlegð á spátímanum en Marel stefnir að því að skila 10-12% EBIT framlegð. Samkvæmt spánni verður framlegðin nálægt 10,5% í ár.