IFS greining spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans lækki vexti um 50 punkta á morgun. Bent er á í spánni að gengi krónunnar hafi haldist nokkuð stöðugt undanfarið. Peningastefnunefndin hefur áður gefið út að stöðugt gengi sé forsenda á slökun á peningalegu aðhaldi.

„Verðbólgan hefur auk þess gefið eftir undanfarið sem eykur líkur á vaxtalækkun. Flest bendir til að hagvöxtur á næsta ári verði minni en áður var talið. Fjárfestingarfrek verkefni hafa tafist í tíma og enn er ekki búið að fullvinna tillögur um endurskipulagningu skulda heimilanna. Þá er einnig enn talsvert í land með að endurskipuleggja skuldir fyrirtækja í landinu. Allt þetta eykur að okkar mati líkur á vaxtalækkun og spáum við því að stýrivextir lækki úr 6,25% í 5,75% á miðvikudaginn.“

Afnám gjaldeyrishafta togar á móti

Segir að það sem haldi aftur af Seðlabankanum að lækka vexti meira sé væntanlegt afnám gjaldeyrishafta. Vegna þeirra hafi raunstýrivöxtum verið haldið of háum miðað við þróun hagkerfisins og með því móti eigi að draga úr vilja fjárfesta til að selja krónueignir við afnám hafta.

„Raunstýrivöxtum hefur verið haldið of háum miðað við þróun hagkerfisins vegna þeirra. Fjárfestar eiga að fá hærri raunvexti á krónur á meðan þeir eru innlyksa en þeir hefðu fengið með fjármagnið í erlendri mynt. Með þessu móti á að draga úr vilja þeirra til að selja krónueignir við afnám gjaldeyrishafta. Óvissa ríkir hvort eigendur króna vilji eiga þær áfram eftir afnám hafta þrátt fyrir háa raunvexti hér á landi.

Ef Seðlabankanum er alvara með afnámi gjaldeyrishafta og trúir því að hátt raunstýrivaxtastig dragi úr fjármagnsflótta þá ætti peningastefnunefnd að halda stýrivöxtum svo gott sem óbreyttum. Sú ákvörðun væri til marks um staðfastan vilja hennar við að afnema höftin fyrir áramót.

Að okkar mati skiptir trúverðugleiki hins vegar meira máli en vaxtastig. Vaxtalækkun er aðgerð sem á rétt á sér miðað við núverandi aðstæður í hagkerfinu og ef trúverðugleikinn er til staðar þá ætti vaxtalækkun ekki að trufla fyrir afnámi gjaldeyrishafta. Reynsla annarra landa sýnir að hátt vaxtastig eitt og sér kemur ekki í veg fyrir veikingu myntar ef fjármagnsflótti er þegar hafinn,“ segir í greiningu IFS.