Í júní eru ríkisbréf á gjalddaga fyrir 86 milljarða að markaðsvirði, þar af eiga erlendir aðilar um 70 milljarða. Hvert  framtíðarútflæðið verður vegna þessara 70 milljarða ræðst að nær öllu leyti af því hvaða vaxtastig verður í júní við endurfjárfestingu.

Þetta kemur fram í skýrslu IFS Greiningar um málið í dag.

Þar kemur fram að ef Seðlabankinn ákveður að halda áfram með varfærið stýrivaxtaferli mun það leiða til hærri ávöxtunar á fyrrgreindri fjárhæð sem setur meiri þrýsting á krónu til veikingar. Veikari króna komi svo fram í hærri verðbólgu sem gangi gegn markmiðum Seðlabanka Íslands.

„Mikil lækkun í júní er því æskileg en peningamálastefnunefnd gefur það sterkt til kynna að vextir verði lækkaðir mikið í júní sem mun hafa mikil áhrif á ávöxtun framangreindra fjárfesta,“ segir í skýrslunni. Dekkri efnahagshorfur og veikara gengi

Fram kom í Peningamálum í morgun að Seðlabanki Íslands spáir því að samdráttur í landsframleiðslu muni nema 11% en bankinn hafði áður spáð um 10% samdrætti.

„Við spáum um 12% samdrætti,“ segir IFS Greining.

„Ástæða aukins samdráttar í landsframleiðslu er fyrst og fremst vegna lakari vöruskipta og frestunar á stóriðjuframkvæmdum. Seðlabankinn spáir því að gengi krónunnar verði veikt áfram en styrkjast hægt á næsta ári.“

Minni óvissa um vaxtagjalddaga

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar var komið inn á vandamál vegna vaxtagjalddaga og hver heildareign erlendra aðila væri í innlendum skuldabréfum með ábyrgð ríkissjóðs.

Seðlabankinn metur að heildareignin sé 200-300 milljarðar en ýmsar kenningar hafa verið uppi um að þessi fjárhæð væri 400-500 milljarðar en í útgáfu IFS, Vaxtagreiðslur og vöruskipti er ítarleg umfjöllun um þetta efni og IFS telur að fjárhæðin sé um 300 milljarðar. Samkvæmt mati Seðlabankans er hlutfall svokallaðra óþolinmóðra fjárfesta um 40%.