IFS greining spáir því að sala Marels muni aukast um 18% á þriðja ársfjórðungi samanborið við sama ársfjórðung í fyrra og að EBIT framlegð verði 10,9% sem er eilítið lægri en á síðasta ársfjórðungi. Marel birtir ársfjórðungsuppgjör sitt á morgun.

Spá IFS greiningar byggir meðal annars á pantanabók félagsins sem var birt í fyrsta sinn í uppgjöri fyrsta ársfjórðungs í ár. Segir að á síðasta ársfjórðungi hafi nýjar pantanir áfram verið umfram afgreiddar pantanir á síðasta ársfjórðungi. Það gefi vísbendingar um sölu á 3. og 4. ársfjórðungi. IFS greining reiknar þó með að sumarleyfistíminn á 3. ársfjórðungi muni setja eitthvert mark sitt á söluna, eins og oft gerist.

Mikilvægt að sjá hvort endurfjármögnun næst

„Nýjar tölur um pantanastöðu Marel eru líkt og áður mikilvægar til að sjá hvernig félaginu getur vegnað á næstu fjórðungum.  Auk þess verður mikilvægt að heyra hvort félagið nær að endurfjármagna skuldir félagsins.  Núverandi kjör á vaxtaberandi skuldum eru fremur óhagstæð og því er mikið í húfi fyrir félagið að ná fram bættum kjörum.  Marel hefur nú þegar gefið út að það sé í viðræðum við banka um endurfjármögnun.  Einnig verður fróðlegt að heyra hvort fréttir verði af mögulegri tvíhliða skráningu á bréfum félagsins,“ segir í greiningunni.

Kostnaður lækkað

Kostnaður Marels hefur lækkað undanfarin misseri eftir hagræðingaraðgerðir. Fjárfestingarþörf er einnig takmörkuð, að því er IFS segir. Að þeirra mati mun þetta tvennt tryggja ásættanlegt sjóðstreymi á næstu fjórðungum.

Þá segir að miðað við nýlega frétt frá Marel um að félagið eigi nú í formlegum viðræðum við alþjóðlega banka sé líklegra að niðurstaða fáist fyrr í endurfjármögnun en áður var talið.

„Ef vel tekst til með endurfjármögnun ætti félagið að geta náð fram talsvert hagstæðari lánakjörum heldur en nú er. Marel hefur undanfarið minnkað skuldir í ISK samhliða hlutafjárútboði og samkomulagi við íslensku bankana um breytingu á sambankaláni úr ISK í EUR.“