IFS Greining hefur ítrekað fyrri greiningu á gengisáhættu tengda Icesave samningnum sem birt var fyrir helgi.

Tilefni ítrekunarinnar er tilkynning frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu þar sem greiningu IFS er svarað og fram kemur að „þrátt fyrir að innbyrðis hlutföll krafna í búið miðað við gengi mynta 22. apríl hafi það ekki þau áhrif sem látið var að liggja í fréttinni” sem byggðist á greiningu IFS.

Höfundar skýrslu IFS segja tilkynningu ráðuneytisins vekja mikla furðu. Nefndarálit fjárlaganefndar Alþingis sé mjög skýrt og þar fari ekki á milli mála að veruleg gengisáhætta sé fólgin í því að kröfur á hendur gamla Landsbankanum séu umreiknaðar í íslenskum krónum.

Nefndarálitið er svohljóðandi: „Kröfur á hendur bankanum í erlendri mynt eru færðar í íslenskar krónur eftir skráðu sölugengi Seðlabanka Íslands 22. apríl 2009 [...] Sú fjárhæð breytist ekki frá þeim degi undir meðferð búsins og er því grundvöllur úthlutunar úr því til viðkomandi kröfuhafa, óháð því hvenær slík úthlutun fer fram. Slitastjórn bankans hefur ekki lagt fram kröfuskrá skv. 119. gr. gjaldþrotalaga og endanleg afstaða liggur ekki fyrir, [...] Gjaldeyrisáhætta bankans er fólgin í því að eignir hans eru að langmestu leyti í erlendri mynt en kröfur á hendur bankanum hafa verið umreiknaðar í íslenskar krónur.”

IFS segir að í greiningu sinni sé fullyrt að kröfurnar hafi verið settar fram í íslenskum krónum. „Nákvæmara er að segja að kröfurnar séu umreiknaðar yfir í íslenskar krónur miðað við gengi gjaldmiðla þann 22. apríl,“ segir í ítrekun IFS sem send var út í gær.

„Mat okkar á gengisáhættu stendur því óhaggað. Ef íslenska krónan veikist, verða forgangskröfur verðminni í erlendri mynt. Veiking krónunnar getur orsakað að eignir Gamla Landsbankans dugi fyrir forgangskröfum og aðrir kröfuhafar fái eitthvað í sinn hlut. Þetta þýðir að veiking krónunnar getur leitt til þess að skuldir vegna Icesave-samningsins munu hækka meira en kröfur innlánstryggingarsjóðs verða óbreyttar. Þótt umræður hafi verið um gjaldeyrisáhættu Icesave-samningsins á Alþingi og víðar óttumst við að margir geri sér ekki grein fyrir gengisáhættunni.“

Þá kemur loks fram að starfsmenn IFS standi við framangreinda greiningu á gengisáhættu Icesave-samningsins. Engar upplýsingar hafi komið fram sem hrekja greininguna.