Staðan á erlendum hlutabréfamörkuðum ber enn keim af óvissu vegna niðursveiflunnar. Heimsvísitalan (MSCI) er nú áþekk og hún var haustið 2003.

Þetta kemur fram í samantekt IFS Greiningar um stöðu og horfur á erlendum mörkuðum. Þar kemur jafnframt fram að botni markaða virðist hafa verið náð í byrjun mars 2009.

Í samantekt sinni segir IFS Greining að síðustu mánuði hafi tiltrú fjárfesta aukist samhliða aðgerðaráætlunum sem stjórnvöld í mörgum löndum hafa kynnt. Þá hafi bjartsýni aukist með betri afkomuhorfum fyrirtækja fyrir síðari hluta ársins 2009 og árið 2010.

„Við teljum að hlutabréfamarkaðir í Noregi, Bandaríkjunum og Bretlandi séu áhugaverðir fyrir fjárfesta vegna hagstæðra verðkennitalna. Eftir góðan 2F09 á flestum hlutabréfamörkuðum reiknum við með minni sveiflum á 3F09,“ segir í samantekt IFS Greiningar en í samantektinni er á einblöðungum farið yfir nokkra af helstu hlutabréfamörkuðunum, séð hvernig þeir hafa þróast að undanförnu og hver möguleg þróun kann að verða.

Mat IFS Greiningar er að hlutabréfaverð á heimsvísu muni ráðast af ýmsum þáttum í ytra umhverfi fyrirtækja. Þar sé meðal annars um að ræða jafnvægi á húsnæðismörkuðum, m.a. þess bandaríska, hagvísum sem sýna að þróuðu hagkerfin séu í raun að ná sér á strik og aðstæðum á lánsfjármörkuðum, þ.e. að traust muni aukast frekar.

Kína á fullu, Bandaríkin að vakna, batinn hægastur í Evrópu

Þá segir í samantekinni að nýlegir hagvísar bendi til þess að horfur fyrir fyrirtæki í Bandaríkjunum séu betri en fyrir fyrirtæki á meginlandi Evrópu.

„Svo virðist sem aðgerðaráætlanir stjórnvalda hafi ekki verið eins markvissar í Evrópu eins og í Bandaríkjunum,“ segir IFS.

„Í Kína er hagvöxtur enn mikill og hefur mælst hærri en flestir greinendur höfðu reiknað með. Staða í raunhagkerfum helstu hagkerfa heims á síðari helmingi ársins mun ráða framvindunni á næstunni að okkar mati.“