IFS Greining gerir ráð fyrir að næsta stýrivaxtalækkun Seðlabankans verði varfærin, 100-150 punktar en stýrivextir eru nú 13%.

Í viðbrögðum IFS við hækkun vísitölu neysluverðs í maí kemur fram að hækkun vísitölunnar hafi verið verulega yfir væntingum. Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,13% í maí en IFS Greining reiknaði með 0,3% hækkun.

IFS segir frávikin helst liggja í því að spáð var 2,5% lækkun á fasteignaverði sem hefur rúmlega 0,3% áhrif á vísitölu neysluverðs til lækkunar en raunin varð sú að fasteignaverð hækkaði um 1% sem hafði um 0,17% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar.

„Hækkum á fasteignaliðnum kemur verulega á óvart sérstaklega í ljósi þess að Fasteignaskrá Íslands hafði nýlega mælt 2,6% lækkun á fasteignaverði. Um er að ræða annan mánuðinn í röð sem að verulegt frávik er á mælingu á fasteignaverði hjá Hagstofunni og Fasteignaskránni,“ segir í viðbrögðum IFS greiningar.

IFS segir vissar viðhorfsbreytingar hafa gætt í tóni Peningamála í maí er Seðlabankinn hafi gefið til kynna að von væri á skarpri vaxtalækkun nú í júní.

„Áður hafði bankinn margoft undirstrikað að reka þyrfti peningamálastefnu með jákvæðum raunstýrivöxtum. Bankinn hafði sömuleiðis bent á að allar ákvarðanir um stýrivexti væru teknar með hliðsjón af mögulegu afnámi gjaldeyrishafta,“ segir IFS greining.

„Hin skarpa lækkun vaxta var þó að ákveðnum hliðarskilyrðum uppfylltum. Þ.e. að trúverðug áætlun um aðgerðir stjórnvalda varðandi fjármálastefnuna líti dagsins ljós og að gengisþróun krónunnar verði hagstæð. Hvorugur framantalinna þátta hefur gengið eftir að fullu og verðbólgumælingin nú hlýtur að teljast  vonbrigði.“