VMF (Verðbréfamarkðurinn í Færeyjum) hefur gert samning við IFS Ráðgjöf um greiningu á hlutabréfum þeirra færeysku hlutafélaga sem skráð eru í Kauphöllinni á Íslandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá IFS en félögin sem um ræðir eru Føroya Banki, Eik Banki, Atlantic Airways og  Atlantic Petroleum.

„Tilgangur samningsins er að veita fjárfestum betra innsæi og þekkingu á fjárfestingu í þessum félögum með óháðri og faglegri greiningu. Einnig er markmið samningsins að auka sýnileika Færeyskra félaga í Kauphöllinni, en þau eru nú orðin mikilvægur hluti hennar,“ segir í tilkynningunni.

„Það er mjög ánægjulegt að samningur hafi náðst við VMF um greiningu færeysku félaganna í Kauphöllinni,“ segir Haraldur Yngvi Pétursson hjá IFS í tilkynningunni.

„Þessi félög hafa ekki fengið mikla athygli frá íslenskum fjárfestum og lítið verið um þau fjallað hér á landi, allt frá skráningu þeirra á sínum tíma. Það er okkur því ánægja að geta tekið þátt í því að auka faglega umfjöllun um þá fjárfestingarkosti sem í boði eru á markaðinum og auka með því þjónustuna við bæði núverandi og framtíðar viðskiptavini. Við teljum að fagleg og óháð greining sé stór þáttur í endurreisn fjármálamarkaða á Íslandi og við hyggjumst leggja okkar að mörkum í þeirri endurreisn sem fyrir höndum er.“