Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,74% á milli mánaða í nóvember sem þýðir að 12 mánaða verðbólga mælist nú 8,6% sem er nokkuð hærra en spár greiningaraðila höfðu gert ráð fyrir 8,3 – 8,5% verðbólgu í nóvember.

Á myndinni hér til hliðar má sjá þróun 12 mánaða verðbólgu síðustu 5 árin. Þar sést hvernig verðbólgan náði hámarki í janúar á þessu ári eða 18,6% en hefur lækkað jafnt og þétt síðan þá ef undan er skilinn júnímánuður. Í síðasta mánuði mældist 12 mánaða verðbólga mælist undir 10% í fyrsta skipti frá því í mars 2008.

IFS Greining segir í viðbrögðum sínum að oft gefi verðbólga til 3 mánaða, sem nú mælist 11,2%, betri mynd af undirliggjandi verðbólgu. Miklar verðhækkanir hafi verið undanfarna mánuði sem útskýrast annars vegar af síðbúnum áhrifum vegna gengisveikingar krónunnar og skattahækkunum.

Þannig bendir IFS á að verulegar hækkanir hafi orðið á fataverði og ýmis konar gjafavöru. Verð fatnaðar hækkaði um 3,4% sem hafði um 0,2% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar. Húsbúnaður og heimilistæki hækkuðu um 2,8% sem hafði 0,2% áhrif á vísitöluna til hækkunar.

Matvælaverð hækkaði óverulega sem var í takt við spá IFS og verð húsnæðis lækkaði óverulega sem var einnig í takt við spá IFS. Há verðbólga verulegt áhyggjuefni fyrir Seðlabankann

Þá bendir IFS á að raungengi krónunnar sé nú í sögulegu lágmarki. Þá geti aðlögun raungengis krónunnar að jafnvægi farið fram með tvennum hætti; í gegnum verðbólgu eða í gegnum nafngengi.

„Æskilegra er að aðlögun krónunnar fari fram í gegnum nafngengisstyrkingu,“ segir í viðbrögðum IFS.

„Ýmislegt bendir þó til að aðlögunin ætli að stórum hluta að fara fram í gegnum verðbólgu. Há verðbólga grefur undir gengi krónunnar. Há verðbólga er því áhyggjuefni fyrir Seðlabankann. Allt virðist nú hvíla á að gengi krónunnar styrkist. Efnahagsreikningur fyrirtækja og heimila, auk þess sem að kostnaður við Icesave-samning fer eftir gengi krónunnar. Ljóst er að ef kostnaður vegna samningsins á ekki að fara úr hófi má gengi krónu ekki veikjast mikið frekar.“