Í dag eru tvær sviðsmyndir á skuldabréfamarkaði. Önnur er sú að verðbólga og stýrivextir lækki hratt á næstu mánuðum. Ef sú verður raunin munu kaup í lengstu óverðtryggðu bréfunum líklegast skila hæstri ávöxtun.

Þetta kemur fram í mánaðarlegu skuldabréfayfirliti IFS Greiningar.

Þar segir að þó sé ekki hægt að horfa fram hjá því að enn er nokkur óvissa varðandi framvindu efnahagsmála.

„Ef Icesave-deilan dregst á langin gæti það haft neikvæð áhrif á efnahagsframvindu og gengi krónu,“ segir í yfirliti IFS.

„Í þessu tilfelli væru styttri verðtryggðu bréfin HFF14 og HFF24 ákjósanlegasti fjárfestingarkosturinn. Að okkar mati eru hagstæðari kaup í HFF24 fremur en HFF14.“

Þá segir að við framangreindar aðstæður sé hægt að framkvæma tvær fjárfestingarstefnur, annars vegar gæti verið tækifæri í að skortselja stysta verðtryggða bréfið HFF14 og kaupa lengstu óverðtryggðu bréfin RIKB19 og RIKB25. Ávinningurinn gæti verið mikill en áhættan sömuleiðis.

Einnig væri hægt að taka hlutlausa stöðu og fjárfesta í HFF24, RIKB19 og RIKB25 í jöfnum hlutföllum. IFS telur að með þessari aðferð fengist ávinningurinn af lækkun vaxta, auk einhverar tryggingar fyrir verðbólguskotum. Þá kemur fram að hingað til hefur IFS mælt með þessari stefnu.

Tvær fjárfestingastefnur

IFS lýsir fyrri fjárfestingastefnunni þannig að hún skortselur 3 milljónir að nafnverði í HFF14 en tekjurnar af skortsölunni séu notaður til að fjárfesta í RIKB19 og RIKB25 fyrir um 1 milljón að nafnverði. Eftir standi um 300 þúsund krónur sem gert er ráð fyrir að séu ávaxtaðar á bankareikningi.

„Þannig myndi 1% lækkun á kröfum flokkanna hækka virði  hlutanna þriggja í fjárfestingarstefnu 1 um 107 þúsund krónur,“ segir í yfirliti IFS.

„Ef að ávöxtunarkrafan þróast skv. væntingum, þ.e. verðtryggðir vextir hækka um 0,5 prósentustig og óvertryggðir um 0,25 prósentustig skilar fjárfestingarstefnan 70 þúsund krónum.“

Í hinni fjárfestingastefnunni er gert ráð fyrir að fjárfest sé í HFF24, RIKB19 og RIKB25 fyrir 1 milljón að nafnverði í hverjum flokk. Ef ávöxtunarkrafa flokkanna lækkar um 1% hækki virði hlutanna þriggja um 244 þúsund krónur. Ef ávöxtunarkrafa þróast í takt við væntingar skili fjárfestingarstefnan um 80 þúsund krónum.

„Hafa verður í huga að hærri miðlunarkostnaður fylgir fyrri stefnunni þar sem 3 bréf eru skortseld og 2 keypt,“ segir í yfirliti IFS.

„Á móti kemur að það er ekkert eigið fjár framlag. Við sleppum miðlunarkostnaði í dæmunum hér en hann getur verið misjafn, eftir stærð viðskipta og söluaðila.“

Útsöluáhrif ganga til baka í febrúar

Loks kemur fram að áhrif útsala á verðlag hafi verið óvenju mikil í janúar eða nærri 1% sem er nærri helmingi meira en verið hefur. Útsöluáhrif gangi að öllu jöfnu til baka og því má búast við bakslagi í næsta mánuði er stærstur hluti útsöluáhrifa ganga til baka.

„Við mælum því með að fjárfestar haldi verðtryggðum bréfum fram að birtingu vísitölunnar nú í febrúar,“ segir í yfirliti IFS að lokum.