Áhrif skattahækkana á vöruverð minni en IFS Greining gerði ráð fyrir en mesta óvissan í verðbólguspám hefur þó verið fasteignaliðurinn.

Þetta kemur fram í viðbrögðum IFS en sem kunnugt er lækkaði vísitala neysluverðs um 0,31% í janúar sem var langt undir væntingum en 12 mánaða verðbólga mælist þannig 6,6%. Verðbólguspá IFS fyrir janúar hljóðaði upp á 1,3% hækkun vísitölunnar.

„Flestir markaðsaðilar bjuggust við verðbólguskoti nú í janúar sem sást meðal annars í mikilli hækkun verðbólguálags á skuldabréfamarkaði,“ segir í viðbrögðum IFS.

„Í haust stóð fasteignaverðið næstum í stað þvert á væntingar en nú lækkað þar hins vegar kröftuglega,“ segir í viðbrögðum IFS.

„Lítil viðskipti hafa verið á fasteignamarkaði og verðsveiflur miklar af þeim sökum. Við gerðum ráð fyrir um 0,5% lækkun fasteignaverðs en fasteignaverð lækkaði um 2,9% sem hafði 0,37% áhrif á vísitölu neysluverðs til lækkunar.“

Óvenju mikil útsöluáhrif

Þá kemur fram að áhrif útsala á verð voru óvenjumikil og samtals um 0,94% til lækkunar. Þá hafi lækkun verðs vegna útsala voru tvöfalt meiri en IFS gerði ráð fyrir. IFS minnir þó á að í fyrra gengu útsöluáhrif til baka í febrúar og mars og viðbúið sé því að mikil hækkun verði á þessum liðum í febrúar og mars.