Á síðustu dögum hafa komið fram nýjar upplýsingar er varða Icesave-samninginn. Kröfur innlánstryggingarsjóðs voru settar fram í íslenskum krónum miðað við gengi krónunnar þann 22. apríl.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá IFS Greiningu en það sem í þessu felst er að hámarki fær innlánstryggingarsjóður 674 milljarða króna óháð gengisþróun íslensku krónunnar.

Skuldir vegna Icesave-samningsins eru hins vegar í pundum og evrum.

Gjaldeyrisáhætta íslenska ríkisins hefur því verið aukin með því að festa hámarks endurheimtur úr þrotabúi Landsbanks í íslenskum krónum. Þetta þýðir að mat á bæði skuldastöðu og áhættu hefur gjörbreyst.

Fram kemur að frá 22. apríl hefur gengi krónunnar veikst og lán vegna Icesave hækkað um 56 milljarða kr. einungis vegna gengislækkunar. Til samanburðar eiga fyrirhugaðar skattahækkanir að skila ríkinu 50 milljörðum og afgangur af vöruskiptum hefur verið 43,7 milljarðar kr. á fyrstu níu mánuðum ársins.

IFS segir að á næstu árum sé þörf á afgangi á vöruskiptum til að geta staðið undir greiðslum vegna erlendra skulda þjóðarbúsins. Icesaveskuldin sé aðeins hluti af heildar erlendum skuldum þjóðarbúsins og gjaldeyrisáhætta vegna Icesave-samnings veki því ugg.

„Í dag stendur lán vegna Icesave-samningsins í 765 milljörðum sem er meira en hálf landsframleiðsla,“ segir í skýrslu IFS.

„Á síðustu árum hafa margir Íslendingar brennt sig illa á gjaldeyrisviðskiptum og óútskýrt af hverju ríkið taki framangreinda áhættu. [...] ef nafngengi krónunnar veikist að meðaltali um 6% á ári eða 31% yfir 6 ára tímabil mun skuld vegna Icesave standa í 570 milljörðum í lok tímabilsins.“

Lélegar heimtur og mikil gengisveiking ólíkleg

Fram kemur í skýrslu IFS að ef krónan veikist, verða eignir Gamla Landsbankans verðmætari í krónum talið. Að sama skapi sé mikil gengisstyrking og fullar endurheimtur ólíklegar.

„Miðað við núverandi aðstæður, þ.a.m. háa erlenda skuldastöðu, er veiking krónunnar ekki ólíkleg,“ segir í skýrslu IFS.

„Ef krónan styrkist gætu endurheimtur orðið minni. Ef gengið styrkist um 5% á ári eða 34% yfir 6 ára tímabil og heimtur verða 70% mun skuldin standa í 306 milljörðum kr.“

Mikil óvissa um skuldastöðu

Þá segir IFS að til að meta hver jafngild skuld væri í dag þurfi að núvirða skuldastöðu eftir 6 ár en núvirðing getur gefið hlutfall skulda af landsframleiðslu. Miðað við að árleg veiking krónunnar verði frá 0 til 10% og það verði fullar endurheimtur verður Icesave skuldin frá 13% til 39% af vergri landsframleiðslu (VLF). Við núvirtum með 5,5%.

IFS segir þó að engin ástæða sé til að nota samningsvexti lánsins til að núvirða upphæðina (samningsvextirnir hefðu getað verið 0%). Í þessu tilfelli séu samningsvextir svipaðir og nafnvöxtur landsframleiðslu gæti verið.

„Við erum ekki að spá árlegri gengisveikingu upp á 6% eða jafnvel meiri en bendum á að slík veiking hefur oft átt sér á Íslandi og mörgum öðrum löndum,“ segir í skýrslu IFS.

„Í sögu íslenska lýðveldisins virðist það einungis hafa gerst örfáum sinnum að krónan hafi styrkst gagnvart evru og dollar yfir 6 ára tímabil. Nú þurfa Íslendingar að treysta á styrkingu nafngengis íslensku krónunnar. Í dag erum við með gjaldeyrishöft til að hindra veikingu krónunnar. Erlendir fjárfestar eiga 600 milljarða króna í vaxtaberandi íslenskum eignum. Það verður veruleg áskorun fyrir Seðlabankann að aflétta gjaldeyrishöftum án þess að krónan veikist. Icesave samningurinn gerir það enn mikilvægara að halda gengi krónunnar sterku. Í ljósi nýrra upplýsinga um Icesave þarf að meta skuldastöðu þjóðarinnar m.t.t. sjálfbærni skulda.“