Nýr flokkur Lánasýsla ríkisins mun bjóða út nýjan ríkisbréfaflokk, RIKB25-0612 þann 12. júní næstkomandi en skuldabréfin eru með vaxtagreiðslufyrirkomulagi og greiðast vextir eftir á, einu sinni á ári.

IFS Greining segir í umfjöllun sinni um flokkinn að með útgáfu bréfanna í flokknum sé verið að búa til markað með langtíma óverðtryggð skuldabréf.

„Það má segja að með útgáfu flokksins sé verið að taka skref í átt að draga úr vægi verðtryggingar,“ segir í umfjöllun IFS og því er bætt við að ávöxtunarkrafa flokksins ætti að hjálpa til við verðlagningu langtíma óverðtryggðra útlána og opna möguleika á slíkum lánum.

Þá telur IFS að útgáfa óverðtryggðs skuldabréfaflokks sé jákvætt skref fyrir skuldabréfamarkað. Hingað til hafi ekki verið í boði langtíma óverðtryggð skuldabréf sem hafa haft meira en u.þ.b. tíu ár fram á gjalddaga.

IFS segir líftíma nýju bréfanna verða líklega á bilinu 9 til 10 ár en líftíminn fer eftir nafnávöxtun og þeirri ávöxtunarkröfu sem tekið verður í útboði bréfsins.

„Með nýjum flokki verður hægt að meta verðbólguálag til nærri 10 ára sem bætir verðmyndun á skuldabréfamarkaði,“ segir í umfjöllun IFS.

Ársvextir verða ákvarðaðir í kjölfar tilboða sem berast og verða tekin í fyrsta útboði flokksins. Skuldabréfin eru óverðtryggð og til sextán ára. Útgáfudagur skuldabréfanna er 12. júní 2009 og lokagjalddagi 12. júní 2025. Fyrsti vaxtadagur er 12. júní 2009. Vaxtatímabilið er ár hvert frá 12. júní til og með 11. júní næsta árs. Árlegir vaxtagjalddagar eru 12. júní ár hvert, í fyrsta sinn 12. júní 2010.