Sérfræðingar IFS ráðgjafar hafa sent frá sér nýja skýrslu þar sem þeir velta fyrir sér túlkun Seðlabankans á gjaldeyrislögunum sem þeir segja að megi skilja þannig að unnt sé að fara með gengishagnað úr landi. - Og það sem meira sé; unnt sé að stýra útstreyminu framhjá gjaldeyrislögunum.

Að sögn annars skýrsluhöfundar, Snorra Jakobssonar, vakti það athygli þeirra að í Peningamálum Seðlabankans sem voru gefin út þann 7. maí síðastliðinn var fullyrt að heimilt væri samkvæmt lögum um gjaldeyrishöft að flytja úr landi gengishagnað sem myndast af skuldabréfum. Orðrétt segir: „...lækki vextir umfram væntingar myndast gengishagnaður af útistandandi skuldabréfum sem heimilt er samkvæmt reglum að flytja úr landi”. Snorri segir að furðu lítið hafi verið talað um þetta og málið hafi verið eins og þruma úr heiðskýru lofti.

Í skýrslu IFS ráðgjafar er bent á í þessari setningu sé vísað til þess að lægri vextir þurfa ekki endilega að leiða til þess að útflæði vegna vaxtagreiðsla dragist saman við lægra vaxtastig. Ástæða þess er að þegar vextir lækka hefur það oftast jákvæð áhrif á skuldabréfamarkað sem leiðir til þess að gengi skuldabréfa hækkar og gengishagnaður myndast. ,,Fyrrgreind setning var notuð sem rökstuðningur fyrir því hvers vegna Seðlabanki Íslands hefur ekki lækkað vexti hraðar en ella. Fyrrgreind staðhæfing olli nokkurri undrun þar sem hún er úr takti við skilning flestra á gjaldeyrislögunum," segir í skýrslunni.

Verulegt fjármagn gæti farið úr landi vegna flutnings gengishagnaðar. Seðlabankinn áætlar að „óþolinmóðir fjárfestar” eigi um 250 milljarða og ef gengishagnaður af þessari eign er 5% er um að ræða 12,5 milljarða auka útstreymi úr landi. Einnig opnar flutningur gengishagnaðar ýmsa möguleika til að flytja fjármagn úr landi segja skýrsluhöfundar sem setja upp tilbúið dæmi um hvernig komast má frámhjá lögunum.

,,Ljóst er að ef flytja má gengishagnað úr landi er það ekki í anda laga sem á að hefta útstreymi og opnar á marga möguleika til að fara á svig við lög um gjaldeyrishöft. Ef að svo er verður Seðlabankinn að setja það skýrt fram að flytja megi hagnað af skuldabréfum úr landi og einnig af hvaða öðrum eignum. Ef að um misskilning er að ræða þá hlýtur sú krafa að standa á Seðlabankann að leiðrétta misskilninginn og færa frekari rök fyrir háum vöxtum. Ef ályktun Seðlabankans um að það megi flytja gengishagnað úr landi er á misskilningi byggð, þá virðist rökstuðningur bankans fyrir háum vöxtum vera nokkuð veikur. Að okkar mati er líklegast um misskilning um að ræða," segir í skýrslunni.