IFS Greining segir fátt markvert hafa komið fram á vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans en að rökstuðningur hans við stýrivaxtaákvörðun nú komi einkennilega fyrir sjónir.

IFS segir bankann leggja mikla áherslu á stöðugleika krónunnar, bæði nú og þegar gjaldeyrishöft verði afnumin. Bankinn nefni að þrátt fyrir að bati hafi verið í vöru- og þjónustujöfnuði hafi viðskiptakjör versnað og að árstíðabundnar avxtagreiðslur til erlendra aðila hafi haft neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuð.

Þennan rökstuðning telur IFS einkennilegan þar sem nokkuð lengi hafi legið fyrir að miklar vaxtagreiðslur yrðu til erlendra aðila á fyrri hluta árs, sérstaklega í mars og júní.

„Einnig var ljóst að vaxtagreiðslur til erlendra aðila yrðu mun minni á þeim ársfjórðungi sem nú er að hefjast en á þeim ársfjórðungum sem eru liðnir. Framangreind rök virðast því hafa átt betur við fyrir nokkrum mánuðum síðan en nú. Einnig hefur afurðaverð og álverð heldur verið að skána á síðustu mánuðum sem bætir vöruskipti,“ segir í skrifum IFS Greiningar um stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans.