Frumútboð á 23% hlut í tryggingafélaginu Sjóvá hefst í dag. Því lýkur mánudaginn 31. mars næstkomandi, þ.e. á mánudag í næstu viku.

IFS Greining, sem gefur út greiningu á Sjóvá í dag, segir virði hlutafjár félagsins um 17,9 milljarða króna. Það svarar til gengisins 11,3 krónur á hlut. Sölugengi í almennum hluta útboðsins liggur á bilinu 10,7-11,9 krónur en lágmarksgengi í opnum tilboðshluta er efra gildið, 11,9 krónur á hlut. Matsgengi IFS Greiningar er 5% undir efri mörkum í almennum hluta en 5,6% yfir neðri mörkum.

Til samanburðar mælti hagfræðideild Landsbankans með kaupum á hlutum í Sjóvá. Deildin metur verðmæti Sjóvár á 13,6 krónur á hlut sem er 14,3% yfir efri mörkum áskriftarbilsins. Miðað við mat hagfræðideildar Landsbankans er markaðsvirði Sjóvár 21,7 milljarðar króna.