IFS Greining spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákveði að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum miðvikudaginn 23. ágúst næstkomandi. Samkvæmt útreikningum IFS hafa raunstýrivextir Seðlabankans lækkað frá því í júní miðað við tólf mánaða verðbólgu og verðbólguvæntinga á skuldabréfamarkaði. Hægt er að nálgast spá IFS hér.

Í greiningu IFS er bent á að skiptar skoðanir hafi verið innan peningastefnunefndar um hversu mikið svigrúm væri fyrir lækkun stýrivaxta á síðasta stýrivaxtafundi í júní, en þá voru vextir lækkaði um 0,25 prósentur. Sumir nefndarmenn voru á því að að vextir hefðu getað lækkað um 0,50 prósentur en aðrir vildu eingöngu lækka vexti til að halda raunstýrivöxtum óbreyttum. Lækkun á gengi krónu hefur meðal annars hækkað verðbólguálagið á skuldabréfamarkaði undanfarið.

Gengi krónunnar hefur gefið eftir

Gengi krónunnar hefur lækkað um 9,2% frá stýrivaxtafundinum í júní og um 10,6% gagnvart evru. Fyrir síðustu ákvörðum peningastefnunefndar hafði gengi krónunnar hækkað um 3,2% frá fundinum í maí og um 6,2% frá stýrivaxtarfundinum í mars. Meðalgengi gengisvísitölunnar það sem af er ári er 158,6 og hefur lítið breyst frá því í júní, en samkvæmt spá Seðlabanka Íslands var gert ráð fyrir því að gengið væri 157 á árinu 2017. Gengisvísitala krónunnar stendur nú í 165,5 stigum en Seðlabankinn gerir ráð fyrir að meðalgengið verði um 148,2 stig á árinu 2018.

Seðlabankinn hefur enn fremur haldið að sér höndum á gjaldeyrismarkaði að mestu leyti í júní og júli. Bankinn hefur samtals selt gjaldeyri fyrir tæpa 4 milljarða króna en til samanburðar keypti Seðlabankinn um 90 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Seðlabankastjóri sagði í samtali við Bloomberg að lífeyrissjóðirnir hefðu byrjað að flytja verulegt fjármagn úr landi sem hefur meðal annars dregið úr áhrifum innflæði fjármagns vegna fjölgunar í komu ferðamanna.

Boðun lækkun vaxta?

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrst íslenskra miðla, sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, í samtali við Bloomberg fréttastofuna að seðlabankar víða um heim væru að lækka vexti, en á sama tíma hafi Seðlabankinn lækkað vexti. Viðtalið hefur verið túlkað á margan hátt en að mati IFS Greiningar var seðlabankastjóri að tala um að Seðlabankinn væri í vaxtalækkunarferli á sama tíma og seðlabankar erlendis væru að hækka stýrivexti og boða hækkanir og draga úr örvunaraðgerðum.

„Við lítum ekki á þetta sem svo að seðlabankastjóri hafi verið að boða vaxtalækkanir á næsta stýrivaxtafundi,“ segir í greiningu IFS.