IFS greining gerir ráð fyrir 75 punkta stýrivaxtalækkun á næsta stýrivaxtafundi Seðlabanka Íslands þann 8. desember nk. Helstu rök fyrir lækkuninni eru hröð hjöðnun verðbólgu, að því er kemur fram í spá IFS. Verðbólgan hefur hjaðnað hraðar en flestir bjuggust við og er 12 mánaða verðbólga konmin niður í 2,6%.

„Nú er svo komið að raunstýrivextir eru orðnir of háir miðað við að fjárfestingar eru í lágmarki og framleiðsluslaki er mikill, atvinnuleysi fer hækkandi, verðbólga er á hraðri niðurleið og verðbólguvæntingar sömuleiðis. Einnig kæmi vaxtalækkun sér vel fyrir skuldsett heimili og fyrirtæki.

Raunstýrivextir á Íslandi (+2,9%) eru orðnir töluvert hærri en á evrusvæðinu (-0,9%) og í BNA (-0,95%) sem stendur ekki til lengdar. Í ræðu Más Guðmundssonar seðlabankastjóra síðasta fimmtudag kom fram að „virkir raunstýrivexti á bilinu 2-2,5% væru einfaldlega of háir eftir að markmið um gengisstöðugleika og verðbólgu hafa náðst.“ Virkir raunstýrivextir eru meðaltal hámarksvaxta á 28 daga innstæðubréfum og vöxtum á viðskiptareikningum lánastofnana en þeir hafa fylgt veðlánavöxtum til sjö daga undanfarna mánuði. Sé horft til orða Más ætti að vera svigrúm 8. desember fyrir jafn mikla vaxtalækkun og síðustu tvo vaxtaákvörðunardaga,“ segir í spá IFS greiningar.