IFS greining spáir óbreyttum stýrivöxtum við næstu stýrivaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands sem er á miðvikudag í næstu viku.

„Við ákvörðun stýrivaxtaspár verður litið til verðbólguþróunar síðustu mánaða ásamt verðbólguhorfum næstu mánaða og annarra atriða sem peningastefnunefndin leggur áherslu á. Krónan hefur styrkst um 3,0% frá síðasta fundi og er inngripastefna SÍ að hafa áhrif á stöðugra gengi en bankinn hefur selt krónur fyrir tæpa 16 ma.kr. á s.l. tveimur mánuðum. Þrátt fyrir að nýjir kjarasamningar hafi verið samþykktir af um helmingi félagsmanna ASÍ þá er enn óvissa hvað varðar kjarasamninga þeirra aðildarfélaga ASÍ sem samþykktu ekki kjarasamninginn frá því í desember. Nefndin mun því bíða átekta eftir niðurstöðum úr þeim,“ segir meðal annars í stýrivaxtaspá IFS greiningar.

IFS telur að Seðlabanki Íslands verði búinn að leggja mat á hugsanleg áhrif „Leiðréttingarinnar“ á hagvöxt og verðlag í næstu Peningamálum 2014/1. Þessar tillögur muni leiða til aukinnar neyslu og aukins verðbólguþrýstings á seinni hluta þessa árs og á næstu árum.