Um miðjan júlí skreið olíuverð yfir 100 dollara á fatið eftir að hafa farið í lægsta gildi á árinu 21. júní s.l. eða 90 dali. Verð sló hæst í tæpa 117 dollara 14. september en er tekið aftur að lækka. Fjallað er um þróun olíuverðs og framtíðarhorfur í grein IFS Greiningar.

Nokkur atriði eru talin helst hafa verið að ýta upp verði á hráolíu að undanförnu og má fyrst nefna þá frétt sem barst frá Íran í byrjun ágúst um að þingið þar væri að íhuga lagasetningu sem hefði í för með sér lokun Hormuz sunds en þar fer um 20% af heimsframleiðslu um á leið sinni á heimsmarkaði. Þó yfirgnæfandi líkur séu á því að Íranir geti ekki viðhaldið slíkri lokun skapar fréttin samt sem áður titring á markaði sem leiðir til verðhækkana.

Þá nefnir IFS að Seðlabanki Bandaríkjanna kynnti þann 13. september síðastliðinn aðgerðir til að örva hagvöxt, m.a. með kaupum á veðskuldabréfum. Fréttin leiddi til veikingar á dalnum og þar af leiðandi til hækkunar á olíuverði.

Hvað framtíðarhorfur varðar segir í greiningunni að Sádí Arabar hafi gefið út að þeir hyggist auka framleiðslu til þess að lækka olíuverð en eins og komið hefur fram í fyrri greiningum þá telja þeir ásættanlegt tunnuverð vera um 110 dalir. Segir í greiningunni að forsendur áðurnefndra hækkana séu frekar byggðar á væntingum en staðreyndum og því líklegt að verð eigi eftir að haldast í kringum 110 dali á fatið að öllu óbreyttu.