Síðustu vikur hefur jafnvægi einkennt danska markaðinn og svo virðist sem óvissa í dönsku efnahagslífi hafi haft hamlandi áhrif á hlutabréfamarkaðinn.

Þetta kemur fram í umfjöllun IFS Greiningar um danska hlutabréfamarkaðinn en danska Úrvalsvísitalan KFX hefur hækkað um 34% á árinu. KFX er samt sem áður ríflega 25% lægri en þegar hún var hæst á árinu 2008.

KFX vísitalan samanstendur af 20 veltumestu félögunum á markaðnum. AP Möller,  lyfjafyrirtækið Novo Nordisk og Nordea Bank vega þyngst í vísitölunni.

Af félögunum í KFX hefur NKT Holding iðnaðarsamsteypan hækkað mest í ár (171%) og Danske Bank kemur næst með 119%.

Þá kemur fram að í ár er talinn verða 4,9% samdráttur en á næsta ári er spáð 0,6% hagvexti. Atvinnuleysi í Danmörku verður 5,5%  á árinu 2010 skv. spám.