Þótt skilanefnd Landsbankans geri ráð fyrir að tæplega 90% endurheimtist upp í forgangskröfur þrotabúsins gerir markaðurinn ráð fyrir að endurheimtur verði hærri þar sem skuldabréf Gamla Landsbankans að nafnvirði 100 dollarar seljast á 4 dollara á markaði.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu IFS Greiningar  um Icesave en IFS segir að aðilar á markaði vænti þess að allar forgangskröfur fáist greiddar og eitthvað verði eftir handa öðrum kröfuhöfum. Ef sú verði raunin mun vaxtakostnaður einn standa eftir sem gæti legið í kringum 100 milljarða kr.

IFS vekur athygli á því að flestar eignir Gamla Landsbanks eru í Bretlandi og því muni efnahagsástand í Bretlandi hafa áhrif á endurheimtur eigna Gamla Landsbankans. Teikn séu um að efnahagsástandið sé að skána í Bretlandi en hagvöxtur mun væntanlega vera um 0,2% á þriðja ársfjórðungi 2009. Landsframleiðslan hefur dregist saman um 5,5% frá því samdráttarskeiðið hófst en núverandi niðursveifla er sú dýpsta frá lokum síðari heimsstyrjaldar.

„Veikt gengi punds, lágir stýrivextir og eftirspurn hins opinbera mun styðja við hagvöxt á næstu misserum í Bretlandi,“ segir í skýrslu IFS.

„Eins og staðan lítur út í dag þá mun hagvöxtur næstu tvö árin því væntanlega vera undir hagvaxtargetu undanfarinna ára. Það getur haft þau áhrif að hámörkun eigna Gamla Landsbankans geti tafist vegna seinkunnar í bata breska hagkerfisins.“

Kostnaður 196 milljarðar en fer eftir endurheimtuhraða eigna

Að mati FIS er kostnaður vegna Icesave-samningsins 196 milljarðar kr. miðað við 90% endurheimtuhlutfall og að endurheimtur dreifist jafnt yfir samningstímann. Eftirstöðvar höfuðstóls munu nema 52 milljörðum kr. og vaxtakostnaður um 144 milljörðum kr. skv. útreikningum IFS.

Þá segir IFS að miklu máli skipti hversu hratt eignir Gamla Landsbankans endurheimtast en líklegast sé að megnið af eignum Gamla Landsbankans endurheimtist á fyrri hluta samningstímans. Ef um 60% endurheimtist fyrstu 2 árin er núvirtur kostnaður 157 milljarðar kr., vaxtakostnaður 105 milljarðar kr. og eftirstöðvar höfuðstóls 52 milljarðar.

Þá segir IFS að þótt skilanefndin geri ráð fyrir að tæplega 90% endurheimtist upp í forgangskröfur geri markaðurinn ráð fyrir að endurheimtur verði hærri þar sem skuldabréf Gamla Landsbankans að nafnvirði 100 dollarar seljast á 4 dollara á markaði.

„Ef 90% af eignum Gamla Landsbankans ganga upp í Icesave skuldbindingu er tapið um 75 milljarðar en til samanburðar lítur flest út fyrir að tap vegna yfirtöku ríkisins á peningamarkaðssjóðum bankanna nemi um 50 milljörðum og áætlað tap Seðlabankans af veðlánum til gömlu bankanna er um 270 milljarðar,“ segir í skýrslu IFS en jafnframt er bent á að líkt og með Icesave þarf ríkið að fjármagna tapið með tilheyrandi vaxtakostnaði.