Velta samkvæmt VSK skýrslum staðfestir að mikill samdráttur er í mörgum greinum atvinnulífsins. Nýjar tölur um veltuna í sept.-okt. 2009 sem Hagstofan birti í morgun sýna að mikill samdráttur er í greinum sem tengjast fjárfestingu og einkaneyslu. Velta í útflutningstengdum greinum er hins vegar ágæt.

Þetta kemur fram í umfjöllun IFS Greiningar um VSK veltu en veltutölurnar eru á verðlagi hvors árs.

Í skýrslu IFS segir að teknu tilliti til verðbólgu sé samdrátturinn á fyrstu 10 mánuðum ársins 2009 15,5%.

Þjóðarútgjöld, sem er samtala einkaneyslu, samneyslu og fjárfestingar, drógust saman um 21% á fyrstu níu mánuðum ársins samkvæmt nýjustu hagvaxtartölum til samanburðar. VSK veltan og þjóðarútgjöldin mæla umsvif í efnahagslífinu. Mikill samdráttur í umsvifum gerir ríkinu erfitt um vik að auka skattatekjur. Til að ná sömu veltusköttum að raunvirði hefur ríkið hækkað veltuskatta.

Þá segir IFS að eins og við mátti búast dróst velta mikið saman í byggingariðnaði. Á fyrstu 10 mánuðum ársins 2009 dróst velta í greininni saman um 45% að nafnvirði og um 51% að raunvirði.

„Það er því mikil ónýtt framleiðslugeta til staðar um þessar mundir. Velta í greinum tengdum einkaneyslu er einnig lítil, t.d. bílasölu,“ segir í skýrslu IFS.

Hins vegar jókst velta í fiskveiðum um 13% á tímabilinu jan.-okt. 2009 og 23% í flugsamgöngum.

„Þetta sýnir að aðstæður fyrir útflutningsgreinar eru nú góðar vegna veikrar stöðu ISK og batnandi aðstæðum á erlendum mörkuðum,“ segir í skýrslu IFS.

Loks kemur fram að búast megi við áþekkri þróun á næstu mánuðum. Spennandi verði þó að sjá veltu tölur í nóv.-des. enda bendi margt til þess að jólasalan hafi verið viðunandi.