Í nýútgefinni greiningu IFS á fyrirtækinu Marel mælir greiningardeild fyrirtækisins með því að kaupa bréf í fyrirtækinu. Eins og stendur er gengi bréfa Marel um 233 krónur. Að mati IFS er gengi bréfa félagsins undirmetið um rúmlega fimmtíu krónur á hlut, sem þýðir með öðrum orðum að þau séu undirmetin um 21,8%.

Spá IFS er að innan árs verði gengið orðið um 2,19 evrur á hlut, eða 308 krónur á hvert bréf Marel. Gangi þessi spá eftir næmi hún einhverri 34% hækkun á þessu eina ári.

Greining IFS byggir á því að kaup Marel á MPS sem Viðskiptablaðið fjallaði um á sínum tíma hafi verið góð fjárfesting til lengri tíma, og að þrátt fyrir miklar hræringar á mörkuðum muni fyrirtækið vaxa og stækka við sig.

Þá segir einnig að fjármagnsflæði fyrirtækisins sé gott og að vegna þess hve stjórn þess hefur sannað sig við stöðugar afborganir á skuldum sínum sé líklegt að fyrirtækið muni ganga aftur í kaup á borð við þau sem það gerði um árið á MPS.