Breska tryggingafyrirtækið IGI Group hyggst fimmfalda veltu sína á næstu þremur árum. Þannig gerir félagið ráð fyrir að velta félagsins verði um 100 milljónir punda árið 2009 eða 11,4 milljarðar króna. VÍS á 40% hlut í IGI og staðfesti Finnur Ingólfsson, forstjóri VÍS, í viðtali við Viðskiptablaðið í dag að áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir talsverðum vexti erlendis og væri þá einkum horft til Bretlands.

Að sögn Finns stendur yfir stefnumótun hjá IGI í tengslum við kaup VÍS á hlut í félaginu um það hvernig aðkoma þess verður að félaginu. "Við setjum stefnuna á að vaxa verulega enda mun stærri markaður en á Íslandi og miklu meiri tækifæri."

Í viðtali við Incurance Times er haft eftir Keith Wardell, framkvæmdastjóra IGI, að félagið hyggist auka starfsemi sína í London þar sem það rekur nú þegar skrifstofu við Lime Street. Er þar haft eftir Wardell að samstarf við VÍS gefi félaginu tækifæri á því að verða öflugt tryggingafélag á landsvísu í Englandi. Einnig muni það gera félaginu kleift að bjóða upp á nýjar vörur. Félagið er með yfir 1.000 tryggingasölumenn út um allt Bretland. Í viðtalinu segist Wardell ekki útiloka þann möguleika að IGI setji upp starfsstöðvar fyrir utan Bretland en segir of snemmt að segja til um það.

"Við höfum heilmikið fram að færa þarna. Þetta félag er dálítið öðruvísi en VÍS og er að selja öðruvísi tryggingavörur en VÍS býður upp á. Það er til dæmis ekki eins sterkt í fjölskyldutryggingum og öðru slíku þannig að við gerum ráð fyrir að fara með okkar afurðir þangað inn," sagði Finnur.