Munur á greiðslu lífeyris til opinberra starfsmanna og launþega á almennum vinnumarkaði er mikill samkvæmt nýjum útreikningum Samtaka atvinnulífsins. Lágmarksiðgjald launamanna og atvinnurekenda til lífeyrissjóða á almennum markaði er nú 11%, en ríkið tryggir sínum starfsmönnum fyrirfram ákveðin réttindi, sem áætlað er að 15,5% framlag í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) standi undir. Þetta veitir opinberum starfsmönnum umtalsvert forskot. Miðað við forsendur SA má jafna umframrétti sjóðfélaga í LSR við 10 milljóna króna starfslokagreiðslu hjá opinberum starfs-mönnum samanborið við sjóðfélaga í Lífeyrissjóði verslunarmanna

Í nýju fréttabréfi SA er gerð grein fyrir þessum útreikningum. Þar kemurfram að á meðan opinber starfsmaður sem hefur töku lífeyris við 67 ára aldur að loknu 42 ára starfi fær 93,5% af meðaltals mánaðarlaunum greiddar í mánaðarlegan ellilífeyri, fær sjóðsfélagi í Lífeyrissjóði verslunarmanna aðeins 69,3% miðað við sömu forsendur. Reynist 15,5% framlag ríkis og opinberra starfsmanna í LSR ekki nóg til að standa undir skuldbind-ingum sjóðsins, eykur ríkið einfaldlega framlag sitt á meðan aðrir lífeyrissjóðir þurfa að bregða á það ráð að skerða réttindi sjóðfélaga.

Ævilíkur 67 ára einstaklings eru 84 ár að meðaltali um þessar mundir þannig að áætlað er að lífeyrisgreiðslur standi yfir í 17 ár. Þetta er þó mjög mismunandi eftir kynjum þar sem ævilíkur karla eru 82,7 ár en kvenna 85,5.

Ígildi góðs starfslokasamnings

Til að skýra þann mismun sem ríkir má taka dæmi af 250 þúsund króna mánaðarlaunum og 3,5% vöxtum, en miðað við þessar forsendur má jafna umframrétti sjóðfélaga í LSR við 10 milljóna króna starfslokagreiðslu hjá opinberum starfs-mönnum samanborið við sjóðfélaga í Lífeyrissjóði verslunarmanna - svo dæmi sé tekið af stórum og öflugum lífeyrissjóði á almennum markaði. Ef miðað er við 500 þúsund króna mánaðarlaun er umframrétturinn ígildi 20 milljóna króna starfslokagreiðslu.

Þessum umframrétti til ellilífeyris má einnig jafna við 3,6% í viðbótarframlag í lífeyrissjóð (eða laun eftir greiðslu tekjuskatts) alla starfsævina miðað við 3,5% vexti eða tæplega 6% hærri laun fyrir greiðslu tekjuskatts.