*

fimmtudagur, 14. nóvember 2019
Innlent 27. september 2019 10:45

Ígló í gjaldþrot

Hönnunarfyrirtækið Ígló ehf. hefur verið úrskurðað gjaldþrota en félagið fór með vörumerkin iglo+indí.

Ritstjórn
Helga Ólafsdóttir fatahönnuður sem var aðal hugmyndasmiðurinn á bak við ígló+indí.

Hönnunarfyrirtækið Ígló ehf. var úrskurðað gjaldþrota þann 12. september síðastliðinn, að því kemur fram í tilkynningu í Lögbirtingablaðinu. Félagið tapaði 78 milljónum króna árið 2017 samkvæmt síðasta ársreikningi og var það 30 milljónir króna meira tap en árið á undan. Þá drógust tekjur félagsins saman um 29 milljónir.

Eigendur fyrirtækisins voru þær Guðrún Tinna Ólafsdóttir framkvæmdastjóri og Helga Ólafsdóttir fatahönnuður, sem var aðal hugmyndasmiðurinn á bak við merkið, en Guðrún Tinna hætti aðkomu að félaginu í ársbyrjun 2016. Hún afsalaði sér jafnframt hlutafé í fyrirtækinu á árinu 2018. Eigendur ígló hafa verið Helga Ólafsdóttir, auk eignarhaldsfélags Svanhildar Vigfúsdóttur og Guðmundar Þórarsonar.

Ígló var þekkt fyrir barnavörumerkið iglo+indi sem var stofnað árið 2008 og hefur hlotið fjölda viðurkenninga hér á landi og erlendis fyrir hönnun. Stjörnur á borð við Kardashian-fjölskylduna og ofurfyrirsætuna Coco Rocha hafa meðal annars lofað vörur og hönnun Ígló. 

Í tilkynningu Lögbirtingablaðsins kemur fram að skiptafundur verði haldinn þann 29. nóvember næstkomandi. Sveinbjörn Claessen lögmaður hefur verið skipaður skiptastjóri. Helga Ólafsdóttir, yfirhönnuður fyrirtækisins og eigandi, vildi ekki tjá sig um málið þegar DV hafði samband.