Talningu atkvæða er nú loksins lokið í bresku þingkosningunum. Íhaldsflokkurinn er ótvíræður sigurvegari kosninganna, en hann fær 331 af þeim 650 þingsætum sem standa til boða. Verður hann því með hreinan meirihluta í breska þinginu á kjörtímabilinu.

Verkamannaflokkurinn fær 232 þingsæti en það er töluvert minna en skoðanankannanir bentu til. Fækkar þingsætum flokksins um 23 milli kjörtímabila og munar 99 sætum á Verkamannaflokknum og Íhaldsflokknum.

Skoski þjóðarflokkurinn fær 56 þingsæti og vann flokkurinn nær algjöran sigur í Skotlandi þar sem 59 sæti voru í boði. Frjálsir demókratar fá átta þingsæti og fækkar þeim um 49 sæti milli kjörtímabila. Plaid Cymru fær þrjú þingsæti. Þá fær breski sjálfstæðisflokkurinn aðeins eitt þingsæti þrátt fyrir að fá 12,6% greiddra atkvæða. 20 sæti renna til annarra frambjóðenda.