Bretar ganga að kjörborðinu í dag og kjósa sér fulltrúa í neðri deild breska þingsins. Samkvæmt síðustu skoðanakönnun sem gerð var fyrir kosningarnar er útlit fyrir að Íhaldsflokkurinn undir forustu Theresu May muni fara með sigur af hólmi.

Samkvæmt könnuninni mun Íhaldsflokkurinn fá 42% atkvæða á landsvísu, Verkamannaflokkurinn 35%, Frjálslyndir Demókratar 10% og breski sjálfsstæðisflokkurinn (UKIP) 5%. Dregið hefur mjög saman með Íhaldsflokknum og Verkamannaflokknum en um miðjan apríl var um 20% munur á fylgi flokkana.

Erfitt er þó að segja til um hversu marga þingmenn hver flokkur muni fá og skiptir þar miklu máli í hvaða kjördæmum flokkarnir eru að bæta við sig eða að tapa fylgi. Kosið er um 650 þingsæti í jafnmörgum kjördæmum og getur því fjöldi þingsæta verið í töluverðu ósamræmi við fylgi á landsvísu. Sem dæmi má nefna að í kosningunum árið 2015 náði Íhaldsflokkurinn meirihluta þingsæta með einungis 36,8% fylgi á landsvísu.

Kjörstaðir opnuðu klukkan sex í morgun að íslenskum tíma og munu þeir loka klukkan 21. Á sama tíma muni fyrsta útgönguspá vera birt en í síðustu tveimur kosningum hafa slíkar spár verið mjög nærri endanlegum kosningaúrslitum. Segir BBC að búist sé við fyrstu tölum fyrir klukkan 23 og að talningu verði lokið klukkan 5 í nótt.