Íhaldsflokkurinn stendur uppi sem ótvíræður sigurvegari bresku þingkosninganna sem fram fóru í gær. Þegar atkvæði í 649 kjördæmum af 650 hafa verið talin er flokkurinn með 364 þingsæti og bætir við sig 47 mönnum. 326 þingsæti þarf fyrir hreinan meirihluta.

Verkamannaflokkurinn galt afhroð og tapaði 59 þingsætum. Þingflokkur flokksins mun telja 203 þingmenn. Frjálslyndir demókratar töpuðu manni og verða ellefu talsins. Formaður flokksins, Jeremy Corbyn, hefur gefið út að hann hyggist ekki leiða flokkinn næst þegar kosið verður til þings.

„Ég mun gera það að verkefni mínu að vinna nótt og dag að því að sanna að það var rétt hjá ykkur að kjósa mig að þessu sinni og vinna traust ykkar fyrir framtíðina,“ sagði Boris Johnson, formaður Íhaldsflokksins, eftir að sigurinn lá fyrir. Sigur Íhaldsflokksins var stærri en nokkurn hafði órað fyrir.

Helsti hausverkur Johnson að kosningum loknum gæti falist í stærð Skoska þjóðarflokksins. Flokkurinn bætti við sig þrettán þingsætum og verða 48 manns á þingi frá flokknum. Um skeið leit út fyrir að þeir yrðu sex til viðbótar. Skotar hafa ekki verið sérlega hrifnir af því að yfirgefa Evrópusambandið og hróp um mögulegt sjálfstæði Skotlands gætu orðið háværari sökum þessa.