Stjórnarandstöðuflokkurinn HDZ hefur fagnað sigri í kosningum til löggjafaþings í Króatíu en flokkurinn fékk 59 af 151 sæti til þingsins. BBC greinir frá.

Stjórnarflokkur Sósíaldemókrata fékk 56 sæti en sérfræðingar telja að það geti orðið erfitt fyrir báða flokka að mynda meirihluta á þinginu, en til þess þarf 76 þingmenn.

Nýtt stjórmálaafl Most, Brúin, sem er kosningabandalag óháðra frambjóðenda fékk 19 sæti og smáflokkar skipta með sér öðrum sætum.

Þetta voru fyrstu kosningar í landinu síðan landið gekk í Evrópusambandið fyrir tveimur árum en eitt helsta kosningamálið var fjöldi flóttamanna, en talið er að um 320.000 flóttamenn hafi komið til landsins það sem af er þessu ári. Atvinnuleysi í Króatíu er 15,4%, þriðja hæsta innan Evrópusambandsins.