Íhaldsflokkurinn bætti við sig á Englandi og Wales og áætlað er að þeir nái meirihluta með 331 þingsæti, að því er segir á BBC. Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur sagt af sér og segir flokkinn þurfa að byggja sig upp á nýtt með annan leiðtoga.

Þá hefur Nick Clegg, leiðtogi frjálslyndra demókrata, sagt af sér. Flokkur hans beið afhroð í kosningunum og tapaði 49 þingmönnum í kosningunum. Flokkurinn hafði 57 þingsæti fyrir kosningarnar en verður nú líkast til með átta sæti.

Leiðtogi UKIP, Nigel Farage, hefur einnig sagt af sér eftir að honum mistókst að vinna kosningu í Thanet South.

Markaði í Bretlandi hafa tekið vel í kosninganiðurstöður, en hlutabréfavísitalan FTSE hefur tekið kipp í dag.

BBC greinir frá.