Breski Íhaldsflokkurinn hefur náð samkomulagi við hinn Norður-írska Lýðræðislega sambandsflokk, DUP, um myndun minnihlutastjórnar. Tíu þingmenn DUP munu styðja ríkisstjórn Íhaldsflokksins og kjósa með þeim í stórum málum. Í kjölfarið mun einn milljarður punda eða því sem jafngildir 133 milljörðum íslenskra króna renna til Norður-Írlands, til viðbótar við fyrir fram ákveðið fjárlög. Þetta kemur fram í frétt BBC um málið.

Hálfur mánuður er frá kosningum en þá glutraði breski Íhaldsflokkurinn, með Theresu May í broddi fylkingar, niður hreinum þingmeirihluta. Hugmyndin var að forsætisráðherrann fengi aukið lögmæti í Brexit samningaviðræðum. Leiðtogi Lýðræðislega sambandsflokksins, Arlene Foster, sagði að samningurinn sem náðst hafði milli aðilanna tveggja væri „góður fyrir Norður-Írland og góður fyrir Bretland“. Hægt er að kynna sér samkomulag flokkanna tveggja hér.

Foster sagði að í kjölfar þess að samkomulagið hafi verið undirritað, muni færast aukinn stöðugleiki yfir bresk stjórnmál, nú, þegar ríkisstjórnin hefst handa við að semja um Brexit við Evrópusambandið. „Samkomulagið mun gera það að verkum að stöðug stjórn mun taka við og þjóna mikilvægum þjóðarhagsmunum Breta á þessum tímamótum.“