Bandaríska upplýsinga-greiningarfyrirtækið IHF og breska fyrirtækið Markit, sem starfar á sama markaði, hafa tilkynnt að þau ætli að sameinast. Sameinað fyrirtæki mun heita IHS Markit.

Samruninn er metinn á um 13 milljarða Bandaríkjadala en sameinað fyrirtæki verður með höfuðstöðvar sínar í London. Með því að flytja höfuðstöðvar sínar til Bretlands þá getur sameinað fyrirtæki sparað sér töluverðar skattgreiðslur, en fjöldi bandarískra fyrirtækja hafa á undanförnum árum sameinast erlendum fyrirtækjum til að komast undan skattgreiðslum í Bandaríkjunum. Með því að setja samrunan upp á þann hátt að erlenda fyrirtækið sé í raun að yfirtaka það bandaríska geta fyrirtækin greitt skatt af hagnaði sameinaðs fyrirtæki sem nemur um 20% í stað 35% eins og fyrirtækjaskatturinn er í Bandaríkjunum.

Hluthafar Markit munu fá greitt að verðmæti 5,6% yfir markaðsvirði hlutabréfa fyrirtækisins, miðað við stöðu bréfanna síðasta föstudag. Hluthafar í IHS munu eiga um 57% í sameinuðu fyrirtæki og hluthafar í Markit 43%.

Starfsemi fyrirtækjana byggir á því að safna saman upplýsingum um viðskipti á mörkuðum sem er síðan notuð til að verðleggja t.d. fyrirtæki, skuldabréf, verðmæti lánasafna og gjaldmiðla.