Nú skoðar Sádí-Arabía útgáfu skuldabréfa fyrir tæplega 2.000 milljarða íslenskra króna. Þá hugmynd fá Sádí-Arabíumenn frá nýútgefnum skuldabréfum Katar-manna sem seldu bréf fyrir 9 milljarða dala eða 1.000 milljarða króna. Fréttastofa Bloomberg greinir frá þessu.

Skuldabréfaútgáfan væri fyrsta útgáfa Sádí-Arabíu á heimsvísu frá upphafi. Ef salan fer fram munu fimm, tíu og þrjátíu ára bréf verða seld í júlí þessa árs, eftir að Ramadan gengur yfir. Bönkum hefur, samkvæmt heimildum Bloomberg, þegar verið boðið að sjá um skuldabréfaútgáfuna.

Eins og fjallað hefur verið um hafa ráðamenn Sádí-Arabíu lýst yfir löngun sinni til að venja ríkið af olíunni sem hefur haldið hagkerfinu gangandi frá því að olía fannst í jörð og gerði konungsríkið að heimsveldi. Skuldabréfaútgáfan gæti verið liður í því að auka við flæði fjármagns gegnum ríkið.