Malasíska flugfélagið Malaysia Airlines íhugar nú að breyta um nafn og merki í kjölfar liðinna atburða, að því er fram kemur í frétt Verdens Gang. Síðustu mánuðir hafa verið mjög erfiðir flugfélaginu. MH17 vél félagsins var skotin niður fyrir tveimur vikum og þá hvarf MH370 vél flugfélagsins í mars. Í flugslysunum tveimur er áætlað að 537 einstaklingar hafi látist.

Í kjölfarið hefur sala mjög dregist saman og farþegafjöldi minnkað. Nú stendur til að ráðast í umtalsverðar breytingar á flugfélaginu. Þar með talið að endurskoða leiðakerfi og banna flug yfir átakasvæðum. Í haust er síðan búist við þvi að nýtt nafn og merki flugfélagsins verði kynnt.