Helstu lífeyrissjóðir landsins íhuga að láta dómstóla skera úr um hvort um eðlilegan kostnað sé að ræða hjá skilanefndum og slitastjórnum Glitnis, Landsbanka og Kaupþings. Helstu lífeyrissjóðir landsins óskuðu í síðasta mánuði formlega eftir sundurliðun á kostnaði meðlima skilanefnda og slitastjórna Glitnis, Landsbanka og Kaupþings banka. Glitnir og Landsbanki hafa svarað fyrirspurnunum án þess þó að svara efnislega en Kaupþing hefur engu svarað.

Lífeyrissjóðirnir óskuðu eftir upplýsingum um greiðslur til meðlima slitastjórna, skilanefnda og framkvæmdastjóra nefndanna, jafnframt vildu þeir fá upplýsingar um hagsmuni meðlima skilanefnda og slitastjórna af greiddum kostnaði umfram persónuleg laun. Helstu lífeyrissjóðir landsins eru meðal lánardrottna og hluthafa föllnu bankanna.