„Við erum að fara yfir málið í rólegheitunum, það er stutt síðan þetta kom upp og við erum að velta því fyrir okkur hvort við eigum að fara með málið til lögreglu,“ segir Lárus Ögmundsson, lögfræðingur Ríkisendurskoðunar, í samtali við Fréttablaðið.

Í ársreikningi Framsóknarflokksins kemur fram að flokkurinn hafi fengið tvo styrki yfir hámarksfjárhæð, sem er 400 þúsund krónur. Skinney Þinganes styrkti flokkinn um 440 þúsund krónur og Einhamar Seafood styrkti hann um 462.750 krónur.

Ríkisendurskoðun benti Framsóknarflokknum á að styrkirnir væru yfir hámarksfjárhæð og brást flokkurinn skjótt við ábendingunum og hefur nú þegar greitt til baka 100 þúsund krónur samtals til fyrirtækjanna.