Malbikunarstöðin Höfði, sem er að nær fullu í eigu Reykjavíkurborgar, er að ganga af smærri keppinautum sínum á malbikunarmarkaði. Þetta hefur Morgunblaðið eftir Sigþóri Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Hlaðbæjar-Colas, sem nú íhugar að kæra Höfða til Samkeppniseftirlitsins. Höfði undirbjóði markaðinn kerfisbundið í skjóli þess að vera í eigu opinbers aðila og að auki skuldlaust.

Eins og fram kom í viðtali Viðskiptablaðsins við Sigþór fyrr á árinu er malbikunarmarkaðurinn ekki svipur hjá sjón miðað við það sem var fyrir hrun og við Morgunblaðið segir hann marga smærri aðila á markaðnum vera að íhuga að leggja niður starfsemi. Hlaðbær-Colas sé þó stórt fyrirtæki sem þoli talsverða ágjöf.