Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma hafa verið reknir með tapi frá árinu 2011. Þetta segir Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarðanna. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2011 nam tapið um 6,7 milljónum króna og 4,7 milljónum í fyrra þegar búið er að taka tillit til tekna af arði frá dótturfyrirtæki og vaxtatekjum af eftirlaunaskuldbindingum. Þórsteinn segir að allt útlit sé fyrir að tapið verði 10-15 milljónir í ár.

Þórsteinn segir að ekki sé hægt að búa við slíkan taprekstur til langs tíma. Það sé fyrirséð að annaðhvort þurfi að segja upp fastráðnu starfsfólki eða ráða færri sumarstarfsmenn. Hvorutveggja muni hafa í för með sér að erfiðara verði að halda görðunum á höfuðborgarsvæðinu í rækt, en þeir eru sex talsins. Samkvæmt samkomulagi milli Kirkjugarðaráðs og íslenska ríkisins fá Kirkjugarðarnir ekki greitt fyrir að starfrækja líkhús. Rekstur þeirra er ekki lögbundinn og engar reglur kveða á um það hvernig líkhús eiga að vera úr garði gerð.

„Stjórn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma mun athuga það alvarlega að loka líkhúsinu í Fossvogi og einnig Fossvogskirkju og tengibyggingum. Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma þurfa að gæta þess að nota framlag ríkisins til lögbundinna verkefna eins og samningurinn fjallar um. Það er óverjandi að reka stofnunina með tapi ár eftir ár vitandi að rekstur þessarar þjónustu, sem er utan við lögbundin verkefni, er að hluta til orsök vandans,“ segir Þórsteinn.