Muhammad bin Salman, staðgengill krónprins Sádí Arabíu og einn valdamesti maðurinn innan konungsfjölskyldunnar, segir að stjórnvöld þar í landi íhugi að selja hluti í ríkisolíufyrirtækinu Saudi Aramco. Í viðtali við Economist segir bin Salman að búast megi við ákvörðun um sölu hluta í Saudi Aramco á næstu mánuðum. Hann segir að sér lítist vel á að taka það skref og telur það vera í þágu fyrirtækisins og sádí-arabíska hlutabréfamarkaðarins.

Saudi Aramco er líklega verðmætasta fyrirtæki í heimi. Þær olíulindir sem það ræður yfir eru tífalt meiri en olíulindir ExxonMobil, stærsta einkarekna olíufyrirtækis í heimi. Þá er vinnslukostnaður olíu í Sádí-Arabíu með þeim lægsta sem þekkist.

Sádí-arabískir ráðamenn segja verðmæti Saudi Aramco hlaupa á þúsundum milljarða dollara. Fyrirtækið veitir hins vegar afar takmarkaðar upplýsingar um starfsemi sína. Það veitir til að mynda engar upplýsingar um tekjur sínar.

Ýmsir möguleikar eru í stöðunni varðandi skráningu bréfa Saudi Aramco. Að sögn ráðamanna í Sádí Arabíu væri hægt að selja hluti í ýmsum dótturfyrirtækjum Aramco sem sinna fullvinnslu hinna ýmsu olíuvara. Það er einnig uppi á borðinu að selja hluti í móðurfélaginu sjálfu, hugsanlega 5% til að byrja með og meira síðar.