Það kemur til greina að landsmenn fái aftur ferðagjöf í sumar. Þetta staðfestir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í samtali við Fréttablaðið .

Hún segir þó enga endanlega ákvörðun hafa verið tekna. Hún bendir á að ferðagjöfin hafi haft jákvæð áhrif á hagkerfið og þ.a.l. sé réttast að skoða nýja ferðagjöf og mögulegar útfærslur á henni. Málið verði rætt á ríkisstjórnarfundi í dag.

„Staðan er sú að það er búið að nýta um helming ferðagjafarinnar og ráðstafa um rúmlega 700 milljónum króna þannig að það eru enn um 700 milljónir sem er þá óráðstafað,“ hefur Fréttablaðið eftir ráðherranum.