Stjórn félags í eigu Seðlabanka Íslands (SÍ) hefur undanfarnar vikur velt því fyrir sér hvort rétt sé að höfða skaðabótamál gegn þremur aðilum sem mynduðu slitastjórn Saga Capital. Verði af málinu er viðbúið að krafa málsins muni hljóða upp á 40 milljónir króna auk virðisaukaskatts.

Í maí 2012 var bú Saga Capital tekið til slitameðferðar og þriggja manna slitastjórn sett yfir félagið. Hana mynduðu Ástráður Haraldsson, þá lögmaður en nú héraðsdómari, Arnar Sigfússon lögmaður og endurskoðandinn Sigrún Guðmundsdóttir. Stærsti, og nánast eini kröfuhafinn með um 99% krafna, var félagið Hilda ehf. sem er í eigu SÍ. Nokkrir fyrrverandi starfsmenn áttu þær kröfur sem út af stóðu.

Á fyrsta kröfuhafafundi upplýsti slitastjórnin að hún myndi taka sér þóknun smám saman af fé búsins og að hún hygðist taka sér hagsmunatengda þóknun vegna fjármuna eða réttinda sem stjórnin myndi afla búinu. Kröfuhafar óskuðu eftir því að slíkar þóknanir yrðu kynntar fyrir fram á skiptafundi áður en þóknun yrði ákveðin. Þá var þess einnig getið að til skiptafunda yrði boðað með tölvubréfi.

Á næsta fundi kom fram að fyrir lægi skýrsla þess efnis að Saga Capital hefði orðið ógjaldfært í október 2008 og tiltekin viðskipti við SÍ væru riftanleg. Stjórnin lýsti þeim fyrirætlunum sínum að höfða riftunarmál á hendur Eignasafni SÍ ehf. (ESÍ) og Hildu ehf. vegna tiltekinna viðskipta.

Þóknun vegna riftunarmáls

Þeim fyrirætlunum var mótmælt af hálfu kröfuhafa enda mætti færa rök fyrir því að það mál hefði lítil áhrif þegar upp er staðið. Yrði fallist á riftun á greiðslu til SÍ myndu fjármunirnir renna aftur til búsins en þegar skiptum væri lokið myndu þeir að stærstum hluta renna aftur til dótturfélags bankans. Lögmenn Hildu lögðu meðal annars fram tillögur sem miðuðu að því marki að komast hjá rekstri riftunarmálanna. Heimildir blaðsins herma að þær hafi falist í því að kröfur starfsmanna yrðu greiddar upp í topp, hlutur Hildu myndi minnka á móti en með því væri hægt að ljúka störfum fyrr.

Sáttaumleitanir fóru út um þúfur þegar slitastjórnin fór af stað með riftunarmálin tvö, 960 milljóna króna mál gegn Hildu og 14,3 milljarða króna mál gegn ESÍ. Riftun var hafnað í síðara málinu með dómi Hæstaréttar í nóvember 2017 en fyrrnefnda málinu lauk í mars 2016 á þann veg að fallist var á riftun.

Eftir að dómur í Hildumálinu var kveðinn upp boðaði slitastjórn til kröfuhafafundar þann 15. apríl 2016. Það var hins vegar ekki gert með tölvubréfi til kröfuhafa heldur með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu. Samkvæmt fundarboði stóð til að „fjallað [yrði] um framhald slitameðferðarinnar“. Enginn mætti á fundinn utan slitastjórnar og var fundurinn nýttur til að samþykkja, eðli málsins samkvæmt andmælalaust, þóknun til slitastjórnar vegna niðurstöðu Hildumálsins. Kom fram í fundargerð að full þóknun væri 53 milljónir króna, auk virðisaukaskatts, en slitastjórnin þótti hóflegt að taka sér 40 milljónir króna auk skatts. Tuttugu milljónir féllu í hlut Ástráðs en hin tvö skiptu afganginum bróðurlega á milli sín. Engir reikningar liggja fyrir um það hvenær greiðslurnar voru inntar af hendi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .