Volkswagen er enn sagt skoða möguleika á frumútboði á dótturfélagi sínu, lúxusbifreiðaframleiðandanum Porsche AG, sem leið til að fjármagna rafvæðingu bifreiðaveldisins. Þetta hefur Reuters eftir heimildarmönnum sínum.

Þeir segja vangaveltur hafa verið uppi um mögulega skráningu Porsche undanfarið ár en að ákvörðun hafi ekki verið tekin í ljósi flókinna hagsmuna sem að málinu snúa. Reiknað er með að verðmæti dótturfélagsins sé á bilinu 45 til 90 milljarðar evra, eða sem nemur um 6,6 til 13,3 billjóna íslenskra króna.

Porsche og Piech fjölskyldurnar eru stærstu hluthafar Volkswagen í gegnum eignarhaldsfélagið Porsche SE, það er annað félag en fyrrnefnt Porsche AG, og halda þýskir fjölmiðlar því fram að fjölskyldurnar geti aflað um 15 milljarða evra með sölu bréfa í útboði, án þess að falla úr sessi sem stærsti hluthafi Volkswagen.

Gengi forgangshlutabréfa í Volkswagen hefur lækkað töluvert undanfarnar vikur en rétti úr kútnum í gær, er það hækkaði um 8,63%. Gengi hlutabréfa í eignarhaldsfélaginu Porsche SE hækkaði sömuleiðis í gær, um 8,46%.