*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 19. júlí 2015 09:15

Íhuga nýjan framtakssjóð

Framtakssjóður Íslands mun ekki ráðast í neinar nýfjárfestingar en stjórnarformaður útilokar ekki stofnun annars sjóðs.

Ritstjórn
Þorkell Sigurlaugsson er stjórnarformaður Framtakssjóðsins.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Framtakssjóður Íslands, sem er að mestu leyti í eigu lífeyrissjóðanna, mun ekki ráðast í neinar nýjar fjárfestingar. Tímabilinu fyrir nýfjárfestingar lauk undir lok febrúar og á sjóðurinn nú einungis í tveimur fyrirtækjum. Hann er eini eigandi fiskútflytjandans Icelandic Group og á jafnframt 38 prósent í spænska fyrirtækinu Invent Farma.

Sjóðurinn var stofnaður í desember 2009 og fjárfesti m.a. í Advania, Promens og N1. Sjóðurinn hefur hins vegar verið að selja frá sér eignir undanfarið og á lítið eftir. Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður Framtakssjóðsins, segir að sjóðurinn hafi selt eignir sínar á hárréttum tíma og að ávöxtunin hafi verið mjög góð, en hann hefur hagnast um tæplega 39 milljarða.

„Þó að líftími sjóðsins sé til 2019 þá er það alltaf markmiðið í svona sjóði að raungera verðmætin sem fyrst ef það næst gott verð fyrir félögin sem er verið að selja. Þessi félög hafa farið á markað eða við höfum náð að selja þau og það hefur bara allt gengið upp,“ segir Þorkell.

Nýr sjóður mögulega stofnaður

 Þorkell segir að það hafi verið rætt meðal stofnenda Framtakssjóðsins að stofna nýjan fjárfestingarsjóð. Sú hugmynd lifir enn þó ekkert hafi verið ákveðið.

„Það getur vel verið að það komi upp. Við vorum að velta því fyrir okkur á tímabili en svo vorum við ekki búnir að klára það. Þannig að það kemur bara í ljós, þetta hefur allavega gengið feikilega vel,“ segir Þorkell.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.