Námufyrirtækið AEX Gold er skráð á markað í Toronto í Kanada. Félagið fékk nýlega 480 milljóna króna fjármögnun frá Danish Growth fund og Greenland Venture A/S ásamt núverandi fjárfestum. Eldur kveðst mjög ánægður með að fá umrædda aðila inn í eigendahóp fyrirtækisins. Með þessu sé félagið að minnsta kosti fjármagnað út næstu átján mánuði.

Eldur Ólafsson, forstjóri AEX Gold, segir að það sé mjög algengt að ung námufyrirtæki (e. junior mining companies) skrái sig á markað. Þessi geiri sé gamall og regluverkið innan hans mikið og stíft. Skráning á markað sé því að mörgu leyti eðlilegur fylgifiskur þess að setja sig inn í regluverkið í bransanum. Þá segir hann að Kanada hafi orðið fyrir valinu vegna þess að markaðurinn þar sé stærstur þegar kemur að ungum námufélögum af öllum fjármunum fari í gegnum hann.

Eldur segir að það komi vel til greina að í framtíðinni taki fyrirtækið upp svokallaða tvíhliða skráningu, sem felur það í sér að hlutabréf félagsins eru skráð á hlutabréfamarkað í tveimur mismunandi kauphöllum. „Mörg fyrirtæki í þessum geira eru með tvíhliða skráningu og við höfum alveg skoðað þann möguleika að vera til dæmis bæði skráð í Kanada og London. Við höfum einnig velt fyrir okkur skráningu á einhvern markað í Norður-Evrópu, til þess að vera nær fjárfestum okkar á því svæði. Flestir fjárfestar okkar eru svissneskir, breskir og íslenskir sjóðir og fjárfestar.“

Fjölbreyttur hópur fjárfesta

Eldur segir að fjárfestahópurinn á bak við AEX Gold sé fjölbreyttur, en stærstu hluthafar eigi það flestir sameiginlegt að vera með langtíma fókus í sínum fjárfestingum. „Það eru til stórir gullsjóðir en hins vegar hafa þeir tapað baráttunni undanfarið, vegna þess að geirinn hefur ekki verið að gera nógu vel. Fjárfestingar í gulli hafa ekki skilað nægilegri arðsemi og því hefur ekki verið mikið fjármagn í boði í þessum gullsjóðum. Við höfum einblínt á þá sjóði sem eru með landfræðilegan og langtíma fókus. Til marks um það vill stærsti hluthafinn okkar, Cyrus Capital Patners, vera á þessu sviði. Það er búið að byggja innviði á námusvæðinu fyrir 10-20 milljarða og því viljum við fá inn sjóði og fjárfesta sem skilja hversu mikils virði það er að byggja innviði. Svo höfum við hægt og bítandi verið að fá inn þekkta aðila, meðal annars frá Sviss, sem eru gullsjóðir. Við höfum því reynt að blanda þessu saman, til þess að setja upp á bakvið okkur fjárfesta og sjóði sem hafa langtímasýn á þetta verkefni. Núna erum við þannig stödd að stærsti parturinn af hlutafénu er í eigu 30-40 fjárfesta og sjóða, en heildarhluthafar eru yfir 200. Allir stærstu hluthafarnir einblína á sömu hlutina. Það skiptir okkur máli þar sem núna er að koma mikið fjárstreymi aftur inn í þennan geira, en það helgast af því að menn óttast að efnahagshorfur í heiminum séu tvísýnar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .