Í ljós hefur komið að í Norðaustur-Atlantshafi er um það bil 595.000 ferkílómetra svæði sem á hverju ári er nýtt af 2,9 til fimm milljónum sjófugla. Frá þessu segir í fræðigrein sem birtist nýverið í tímaritinu Society for Conservation Biology og fjallar um mikilvægt sjófuglasvæði í N-Atlantshafi.

Skoðuð voru gögn, m.a. um ferðir og stofna, um 23 tegundir sjófugla frá 105 sjófuglabyggðum í 16 löndum við Norður- og Suður-Atlantshaf.

Í frétt Náttúrufræðistofnunar Íslands segir að nefnd OSPAR-samningsins um verndun Norðaustur-Atlantshafsins, er nú með í skoðun að vernda þetta hafsvæði, því það gæti hjálpað til við að draga úr núverandi og framtíðarógn sem blasir við tegundum á svæðinu.

Lundar frá Íslandi eru meðal þeirra fuglategunda sem dvelja talsvert á svæðinu sem fjallað er um í greininni.

Tveir starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands eru meðal höfunda greinarinnar, þeir Ingvar Atli Sigurðsson og Þorkell Lindberg Þórarinsson.