Aðalheiður Héðinsdóttir, eigandi og stofnandi Kaffitárs, segir í samtali við DV að fyrirtækið hafi sent kærubréf til úrskurðarnefndar um upplýsingamál vegna þess að fyrirtækið hafi ekki fengið nægjanlega góðan rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun Isavia að hafna umsókn þess um húsnæði í Leifsstöð.

Hún segir að 20% af tekjum fyrirtækisins komi í gegnum kaffihúsin í Leifsstöð. Fyrirtækið hafi hins vegar ekki tekið ákvörðun um hvort dómsmál verði höfðað. „Við höfum ekki tekið ákvörðun um það. Við vorum að senda á föstudaginn annað kærubréf til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Við sendum kærubréf til nefndarinnar, Isavia svaraði og nú erum við búin að svara bréfi þeirra. Við ætlum að sjá hvað kemur út úr því áður en við ákveðnum næstu skref.“